YLFA býður upp á fræðslu varðandi flest það sem tengist fólki með þroskafrávik. Erindi og námskeið eru sniðin samkvæmt óskum hverju sinni fyrir smáa sem stóra hópa. Hafið samband, viðrið hugmyndir ykkar og YLFA finnur rétta viðfangsefnið, námskeiðshaldara og/eða fyrirlesara við hæfi.

Stuðingshópar „Share the care“ er bandarísk hugmyndafræði sem varð til fyrir langveika og alvarlega sjúka. YLFA hefur reynt hugmyndafræðina í þjónustu sinni og lagað hana að þörfum fólks með fötlun. Í þjónustu YLFU hefur “deilum ábyrgðinni” að stærstum hluta snúist um að draga úr félagslegri einangrun þess sem býr við fötlun og fjölskyldu hans. Stuðningshópar eru úrræði sem henta öllum, börnum, unglingum og fullorðnum, hvort sem búið er í foreldrahúsum, á sambýlum eða í sjálfstæðri búsetu.

Stuðningshópurinn sjálfur hefur eigið markmið; að þátttakendur finni ávinning af veru sinni í hópnum.
Hópurinn samanstendur af vinum, kunningjum og fjölskyldu og er valinn af þeim sem óska eftir stuðninghópi. Þegar nafnalistinn er fenginn hefst starfsmaður YLFU handa við að safna hópnum saman og deila út verkefnum. Ný áætlun er gerð eftir þörfum, t.d. eftir viku eða mánaðarlega en fundir þar sem allir þátttakendur hittast eru 2-3 á ári eða eftir þörfum. Stýrimaður hópsins hefur samband við þátttakendur símleiðis eða í gegnum tölvupóst.